fbpx

Almennir skilmálar Arctic Track

#1 Gildissvið 

 

#1.1. Skilmálar þessir gilda um viðskipti milli Arctic Track ehf., kt. 690923-1060, Grænásbraut 506M, 262 Reykjanesbæ, sími: 421-2222, netfang: at@at.is (hér eftir „Arctic Track“ eða „félagið“), og viðskiptavinar. Með viðskiptavini í skilmálum þessum er átt við viðskiptavin sem er skilgreindur í áskriftarsamningi milli Arctic Track og viðskiptavinar og/eða samþykktu tilboði Arctic Track og viðskiptavinar.  

 

#1.2. Skilmálar þessir fela í sér samning milli Arctic Track og viðskiptavinar fyrir notkun og/eða greiðslu á þjónustu og/eða búnaði Arctic Track. Eftirfarandi telst hluti skilmála þessara 

  • Samþykkt tilboð Arctic Track og viðskiptavinar. 
  • Áskriftarsamningur milli Arctic Track og viðskiptavinar. 
  • Sértækir samningar (eftir atvikum). 

 

#1.3. Skilmálar þessir eru birtir á vefsíðu Arctic Track, www.at.is/almennirskilmalar.   

 

#2 Greiðslur 

 

#2.1. Gjöld fyrir vörur og þjónustu Arctic Track er að finna í samþykktu tilboði félagsins og viðskiptavinar, áskriftarsamningi milli Arctic Track og viðskiptavinar og eftir atvikum sértækum samningum milli aðila og í verðskrá Arctic Track.  

 

#2.2. Arctic Track gjaldfærir viðskiptavin fyrir veitta þjónustu mánaðarlega, nema um stakt gjald sé að ræða eða ef annað er tilgreint í áskriftarsamningi milli Arctic Track og viðskiptavinar. Reikningar eru sendir með rafrænum hætti og eingöngu birtir í netbanka viðskiptavinar. Gjöld vegna miðlun reikninga er að finna í verðskrá Arctic Track 

 

#2.3. Áskriftargjald í áskriftarsamningi er greitt fyrir fram og er gjalddagi reikninga 1. dags mánaðar og eindagi 10 dögum síðar, nema um annað hafi sérstaklega verið umsamið. Viðskiptavinur hefur val um að áskriftargjöld verði skuldfærð í boðgreiðslum og skal ósk um slíkt send á netfangið at@at.is. Viðskiptavinur getur óskað eftir því að reikningar vegna áskriftargjalda í boðgreiðslum verði sendir í tölvupósti.  

 

#2.4. Áskriftargjald miðast við grunnvísitölu neysluverðs í sama mánuði og dagsetning undirritaðs áskriftarsamnings og breytist með henni til hækkunar eða lækkunar, þó aldrei lægri en grunnvísitalan segir til um.  

 

#2.5. Stofngjald, ísetningargjald o.fl. skal greitt við upphaf viðskipta eins og nánar er kveðið á um í áskriftarsamningi milli Arctic Track og viðskiptavinar.  

 

#2.6. Viðskiptavinur ber ábyrgð á greiðslu fyrir notkun á þjónustu og/eða búnaði Arctic Track, jafnframt þótt notkunina megi rekja til annars aðila. Þá ber viðskiptavini jafnframt að greiða Arctic Track fyrir þær áskriftir sem hann er skráður fyrir, þótt engin notkun hafi átt sér stað 

 

#2.7. Sé reikningur ekki greiddur á eindaga ber viðskiptavini að greiða dráttarvexti, eins og þeir eru ákveðnir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá og með gjalddaga til greiðsludags, auk þess sem gjald vegna innheimtuviðvörunar samkvæmt verðskrá leggst á kröfu í samræmi við verðskrá Arctic Track 

 

#2.8. Athugasemdir skulu gerðar við útgefna reikninga án tafar og eigi síðar en á eindaga, ella telst reikningur samþykktur. Berist athugasemdir of seint eða eftir eindaga, en atvik réttlæta með ótvíræðum hætti tafir á því að athugasemdir bárust, skal Arctic Track eins og frekast er unnt taka afstöðu til þeirra 

 

#3 Vanskil 

 

#3.1. Ef viðskiptavinur greiðir ekki reikning á réttum tíma, sendir Arctic Track viðskiptavini skriflega innheimtuviðvörun og er viðskiptavini veittur tíu (10) daga frestur til að greiða útistandandi reikninga. Greiði viðskiptavinur ekki hinn ógreidda reikning innan framangreinds frests verður krafan flutt í milliinnheimtu. Allar innheimtuviðvaranir frá Arctic Track eru ávallt sendar með tölvupósti og pósti á skráð póstfang viðskiptavinar. Sé krafa í vanskilum verður hún eftir atvikum send í framhaldsinnheimtu til innheimtuaðila. Viðskiptavinur skal greiða þann kostnað sem af innheimtu kröfu hlýst skv. innheimtulögum nr. 95/2008 og reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. nr. 37/2009.  

 

#3.2. Í tilviki vanskila áskilur Arctic Track sér rétt til að loka fyrir áframhaldandi þjónustu hafi viðskiptavinur ekki staðið í skilum á útgefnum reikningi fimmtán (15) dögum eftir eindaga. Arctic Track áskilur sér einnig rétt til þess að loka fyrir alla þjónustu viðskiptavinar og/eða synja um áframhaldandi þjónustu, ef útgefinn reikningur hefur ekki verið greiddur á eindaga, óháð því um hvaða þjónustu Arctic Track er að ræða.  

 

#3.3. Arctic Track opnar ekki fyrir þjónustu viðskiptavinar nema Arctic Track hafi borist fullnaðargreiðsla vegna vanskilanna sem orsakaði lokun þjónustunnar. Viðskiptavinur á ekki rétt á niðurfellingu þjónustugjalda fyrir það tímabil sem þjónusta/-ur hans er lokuð/lokaðar vegna vanskila.  

 

#3.4. Hvorki Arctic Track né viðskiptavinur skal teljast hafa vanefnt skilmála þessa ef vanefnd má rekja til ytri atburða eða aðstæðna sem teljast óviðráðanlegir (Force Majeure). Til óviðráðanlegra ytri atburða eða aðstæðna teljast t.d. stríð eða sambærilegt ástand, náttúruhamfarir s.s. eldgos, gasmengun, flóð, eldur, bruni og önnur atvik af náttúrunnar höndum sem aðilar hafa hvorki valdið eða hafa áhrif á, verkföll starfsfólks sem áhrif hafa á efndir skilmála þessara, farsóttir eða ástand vegna sjúkdóma sem hindra efndir samkvæmt skilmálum þessum. 

 

#4 Gildistími og uppsögn 

 

#4.1. Eftir að viðskiptavinur hefur gengist við að kaupa þjónustu stofnast ótímabundinn samningur milli viðskiptavinar og Arctic Track, nema samið hafi verið sérstaklega um annað milli Arctic Track og viðskiptavinar.  

 

#4.2. Viðskiptavinur er skuldbundinn samkvæmt skilmálum þessum fram að þeim tíma sem hann eða Arctic Track segir þjónustunni upp í samræmi við skilmála þessa, skilmála áskriftarsamnings eða skilmála sértækra samninga sem gilda um viðkomandi þjónustu.   

 

#4.3. Viðskiptavini er heimilt að segja þjónustu upp með minnst þriggja (3) mánaða fyrirvara, að því gefnu að uppsögn berist fyrir mánaðarmót, nema sérstök uppsagnarákvæði gildi um viðkomandi þjónustu samkvæmt áskriftarsamningi eða skilmálum sértækra samninga sem gilda um hana. Uppsögn viðskiptavinar skal berast Arctic Track með skriflegum hætti, svo sem með tölvupósti.  

 

#4.4. Í þeim tilvikum sem þriðji aðili óskar þess að segja upp þjónustu fyrir hönd viðskiptavinar, þarf viðkomandi að skila gildu umboði til Arctic Track áður en slík uppsögn getur farið fram. Hið sama á við ef þriðji aðili óskar þess að gera breytingar á þjónustu viðskiptavinar eða koma fram fyrir hönd viðskiptavinar með öðrum hætti.  

 

#5 Framsal og undirverktaka 

 

#5.1. Viðskiptavini er óheimilt að framselja, að hluta eða öllu leyti, réttindi og skyldur samkvæmt skilmálum þessum, áskriftarsamningi eða sértækum samningum án samþykkis Arctic Track. Óski viðskiptavinur eftir því að framselja réttindi og skyldur verður hann að gera það skriflega, svo sem með tölvupósti. Samþykki Arctic Track framsal á réttindum og skyldum viðskiptavinar verður gerður skriflegur viðauki sem skal undirritaður af viðskiptavin, Arctic Track og framsalshafa. Framsal verður þó ekki heimilað af hálfu Arctic Track nema viðskiptavinur hafi staðið skil á öllum ógreiddum gjöldum til Arctic Track fram að þeim degi þegar framsalið er samþykkt.  

 

#5.2. Arctic Track er heimilt að framselja til þriðja aðila sem getur veitt sambærilega þjónustu, að hluta eða öllu leyti, réttindi sín og skyldur samkvæmt skilmálum þessum, áskriftarsamningi eða sértækum samningum með tilkynningu til viðskiptavinar.  

 

#5.3. Arctic Track er heimilt að útvista þjónustu sinni að hluta eða í heild til þriðju aðila. Viðskiptavini er ekki heimilt að beina kröfum sínum að slíkum undirverktökum, nema lög kveði á um annað. Undirverktökum er heimilt að hafa samband við viðskiptavin með tölvupósti eða í síma í tengslum við þjónustu sem þeir sinna fyrir hönd Arctic Track.  

 

#6 Höfunda- og hugverkaréttur 

 

#6.1. Viðskiptasamband Arctic Track og viðskiptavinar hefur ekki í för með sér neins konar yfirfærslu á höfunda- eða hugverkarétti frá Arctic Track eða þriðja aðila til viðskiptavinar 

 

#6.2. Hvers kyns búnaður sem kann að vera afhentur viðskiptavini vegna tiltekinnar þjónustu er eign Arctic Track. Sé hugbúnaður innbyggður í búnaðinum er sá hugbúnaður jafnframt eign Arctic Track eða þriðja aðila sem hefur veitt Arctic Track rétt til notkunar á honum. Afhending búnaðar, þ.m.t. hugbúnaðar, felur ekki í sér framsal á eignar-, höfunda- eða hugverkarétti frá Arctic Track til þriðja aðila eða til viðskiptavinar. Viðskiptavini er með öllu óheimilt að afrita, selja, fjölfalda, endurútgefa eða með öðrum hætti breyta hug- eða vélbúnaði Arctic Track.  

 

#6.3. Notkunarleyfi á hugbúnaði Arctic Track er óframseljanlegt af hálfu viðskiptavinar en takmarkar ekki rétt Arctic Track til sölu eða framsals á hugbúnaðinum til annarra aðila.  

 

#7 Búnaður 

 

#7.1. Allur búnaður sem Arctic Track leigir viðskiptavini vegna tiltekinnar þjónustu er eign Arctic Track, þ.m.t. hvers kyns hugbúnaður sem kann að vera innbyggður í slíkum búnaði, nema annað sé sérstaklega tilgreint. Viðskiptavini er óheimilt að taka leigubúnaðinn í sundur eða valda nokkrum breytingum á vél- og hugbúnaði sem honum tilheyrir, sbr. gr. #6.2. 

 

#7.2. Sá búnaður sem Arctic Track leigir viðskiptavini er einungis ætlaður viðskiptavini. Viðskiptavini er óheimilt að leigja búnaðinn, selja eða láta af hendi með öðrum hætti.  

 

#7.3. Viðskiptavinur ber ábyrgð á meðferð á þeim búnaði sem hann fær leigðan frá Arctic Track. Sú ábyrgð fellur niður þegar búnaði hefur verið skilað til Arctic Track með sannanlegum hætti og yfirfarinn af Arctic Track. Ábyrgð viðskiptavinar tekur ekki til eðlilegra slita á leigðum búnaði en sé leigður búnaður ónothæfur vegna meðferðar viðskiptavinar getur Arctic Track krafist greiðslu á kostnaðarverði nýs búnaðar, eins og það er á hverjum tíma 

 

#7.4. Sé ekki um annað samið skal Arctic Track bera ábyrgð á almennu viðhaldi á leigðum búnaði vegna hefðbundinnar og eðlilegrar notkunar. Viðskiptavinur ber ábyrgð á öllu viðhaldi og rekstri á keyptum vörum.  

 

#7.5. Allar viðgerðir á búnaði Arctic Track skulu fara fram hjá Arctic Track og skal viðskiptavinur tilkynna um bilanir á netfangið at@at.is. Allar viðgerðir á seldum og/eða leigðum búnaði skulu framkvæmdar af Arctic Track og skal öðrum aðilum óheimilt að framkvæma viðgerðir á búnaði án samþykkis Arctic Track.  

 

#7.6. Viðskiptavinur er ábyrgur fyrir öllum skemmdum og óheimilum breytingum á leigðum búnaði. Ef rekja má viðgerðarkostnað á leigðum búnaði til rangrar eða slæmrar meðferðar á búnaði er Arctic Track heimilt að innheimta þann kostnað sérstaklega.  

 

#7.7. Telji viðskiptavinur leigðan eða keyptan búnað eða vörur vera gallaðar eða ekki virka sem skyldi skal viðskiptavinur hafa samband við Arctic Track varðandi frekari greiningu. Arctic Track áskilur sér rétt til að sannreyna hvort að um galla sé að ræða. Þá skal Arctic Track ákveða hvernig bregðast skuli við gallanum, t.d. hvort endurgreiða skuli keyptan búnað, gera við hann eða skipta honum út fyrir ógallaðan búnað.  

 

#7.8. Við lok viðskiptasambands ber viðskiptavini að hætta allri notkun hugbúnaðar og leigðs búnaðar Arctic Track. Leigðum búnaði skal skila til Arctic Track innan 30 daga eftir lok viðskiptasambands. Verði dráttur á skilum búnaðar áskilur Arctic Track sér rétt til að innheimta gjöld skv. gr. #2 þar til búnaði hefur verið skilað.  

 

#8 Samskipti 

 

#8.1. Arctic Track getur sent viðskiptavini skilaboð, upplýsingar og tilkynningar vegna viðskipta við félagið í tölvupósti, pósti eða með öðrum hætti sem Arctic Track ákveður. Vilji viðskiptavinur breyta samskiptaupplýsingum, t.d. símanúmeri eða netfangi, skal viðskiptavinur tilkynna slíkar breytingar í tölvupósti til Arctic Track á netfangið at@at.is. Arctic Track er heimilt að senda þjónustukönnun á skráð netfang viðskiptavinar eftir að viðskiptavinur hefur leitað til Arctic Track, svo sem með símtali. 

Arctic Track áskilur sér rétt til þess að hafa samband við viðskiptavin í viðskiptalegum tilgangi, svo sem til að spyrjast fyrir um virkni og gæði þjónustu eða upplifun viðskiptavinar. Viðskiptavini er hins vegar ávallt frjálst að afþakka slík samskipti frá félaginu. Arctic Track er heimilt að hafa samband við viðskiptavin í kjölfar uppsagnar þjónustu í þeim tilgangi að fá upplýsingar um ástæðu uppsagnar.  

 

 

#8.2. Arctic Track gætir þess að samskipti við viðskiptavin og aðra í markaðslegum tilgangi séu lögmæt. Við skráningu netfangs viðskiptavinar er honum frjálst að andmæla notkun netfangsins í markaðslegum tilgangi og í hvert sinn sem slíkur póstur er sendur. Að öðru leyti byggja slík samskipti Arctic Track við aðra en viðskiptavini á samþykki viðkomandi. Unnt er að afturkalla samþykki hvenær sem er. Ekki er haft samband við einstaklinga með símtali hafi viðkomandi skráð sig á bannskrá þjóðskrár eða bannmerkt sig í símaskrá, nema viðkomandi hafi veitt Arctic Track sérstakt samþykki fyrir slíkum samskiptum.  

 

#9 Persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga 

 

#9.1. Þjónusta Arctic Track kann að fela í sér vinnslu persónuupplýsinga. Vinnsla Arctic Track á persónuupplýsingum skal uppfylla skilyrði persónuverndarlaga. Um vinnsluna gildir persónuverndarstefna Arctic Track sem er aðgengileg á vefsíðu Arctic Track: www.at.is/personuvernd 

 

#9.2. Arctic Track er vinnsluaðili og viðskiptavinur ábyrgðaraðili í skilningi persónuverndarlaga fyrir vinnslu þeirra persónuupplýsinga sem verða til í búnaði sem Arctic Track hefur aðgang að vegna þjónustu sinnar.  

 

#10 Gögn  

 

#10.1. Flotastýringarlausn Arctic Track geymir gögn með upplýsingum sem verða til við rafræna vöktun vegna notkunar ökurita viðskiptavinar í að minnsta kosti 30 daga. Ef viðskiptavinur óskar eftir því að Arctic Track geymi slík gögn lengur en 30 daga skal viðskiptavinur sem ábyrgðaraðili í skilningi persónuverndarlaga ganga úr skugga um að lög heimili lengri geymslutíma slíkra gagna. 

 

#10.2. Gögn, sem verða til við notkun þjónustunnar, t.a.m. tölfræðiupplýsingar, staðsetningargögn og notkunarupplýsingar, eru eign viðskiptavinar og skal Arctic Track veita aðgengi að gögnunum innan þeirra marka sem persónuverndarlög og hugbúnaðurinn leyfir. Viðskiptavinur heimilar Arctic Track að nýta gögnin við tölfræðilegar samantektir og aðrar samantektir. Arctic Track mun eingöngu nota slíkar samantektir í viðskiptalegum tilgangi og miðla til þriðja aðila enda sé ekki hægt að rekja gögnin til viðskiptavinar.  

 

#10.3. Við samningslok getur viðskiptavinur óskað eftir því skriflega að fá gögnin afhent eða þeim eytt. Arctic Track áskilur sér rétt til að innheimta kostnað vegna þessa sérstaklega.  

 

#11 Ábyrgð 

 

#11.1. Arctic Track ber ekki ábyrgð á því að samband þjónustunnar rofni um stund. Arctic Track mun þó ávallt leitast við að koma á sambandi á þjónustunni að nýju sem fyrst og viðhalda gæðum þjónustunnar. Arctic Track ábyrgist ekki tjón sem rekja má til sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri þjónustunnar.  

 

#11.2. Ábyrgð Arctic Track á seldum vörum er í samræmi við lög þar að lútandi. Ábyrgð á nýjum vörum sem seldar eru til einstaklinga er 2 ár en ábyrgð á nýjum vörum sem seldar eru til lögaðila er 1 ár.  

 

#11.3. Ábyrgð á seldum vörum nær ekki til eðlilegs slits eða notkunar á vöru. Ábyrgð fellur úr gildi ef aðrir en starfsmenn Arctic Track hafa átt við vöruna án samþykkis Arctic Track. Ábyrgð nær ekki til bilana eða tjóns af utanaðkomandi orsökum, svo sem eldsvoða, vatns, þjófnaðar, slyss, verkfalla, rafmagnsbilunar eða spennubreytinga, nema um slíkt sé samið sérstaklega áður en gengið er frá kaupum.  

 

#11.4. Arctic Track ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að verða við flutning vöru hjá þriðja aðila. Ef viðskiptavinur vill tryggja vöru sérstaklega fyrir flutning þarf það að koma skýrt fram við kaup á vöru.  

 

#11.5. Bótaskylda Arctic Track takmarkast við beint tjón sem viðskiptavinur kann að verða fyrir í tengslum við áskriftarsamning aðila eða viðskipti. Bótaábyrgð Arctic Track nær þannig ekki til óbeins tjóns eða afleidds tjóns viðskiptavinar eða þriðja aðila. Þannig ber Arctic Track ekki bótaábyrgð af þeirri ástæðu einni að virkni þjónustu og/eða vöru bar ekki þann árangur sem væntingar stóðu til eða ef bilanir verða í vörum eða búnaði sem ekki verða raktar til Arctic Track eða vegna rangrar notkunar viðskiptavinar á vörum eða nýtingu þjónustu Arctic Track.  

 

#11.6. Bótaskylda Arctic Track takmarkast jafnframt við það tjón sem viðskiptavinur verður sannanlega fyrir vegna ásetnings eða stórfellds gáleysis Arctic Track.  

 

#11.7. Rifti Arctic Track áskriftarsamningi vegna vanefnda viðskiptavinar skal Arctic Track ekki vera bótaskylt vegna tjóns sem kann að verða vegna riftunarinnar.  

 

#11.8. Bótaábyrgð Arctic Track takmarkast að hámarki við þá fjárhæð sem nemur því þjónustugjaldi, sem viðskiptavinur hefur greitt Arctic Track samkvæmt áskriftarsamningi á síðustu þremur mánuðum áður en tjónsatburður átti sér stað. Að öðru leyti fer um bótaábyrgð skv. almennum reglum skaðabótaréttar.  

 

#12 Trúnaður 

 

#12.1. Öll gögn og upplýsingar sem Arctic Track verður vísari um viðskiptavin skal vera trúnaðarmál þeirra á milli. Viðskiptavinur skal á sama hátt gæta fyllsta trúnaðar um gögn og upplýsingar er varðar Arctic Track. Upplýsingar skal aðeins nota í þeim tilgangi sem þær voru fengnar og að því marki sem nauðsynlegt er við framkvæmd skilmála þessara, skilmála áskriftarsamnings og eftir atvikum skilmála sértækra samninga. Arctic Track og viðskiptavinur skuldbinda sig til að ljóstra ekki trúnaðarupplýsingum sem þeir hafa móttekið frá gagnaðila, þ.m.t. upplýsingum um stjórnunar-, fjárhags- eða tæknilegar aðstæður gagnaðila, aðrar aðstæður varðandi rekstur, viðskipti eða atriði sem ætla má að teljist trúnaðarupplýsingar, sem halda ber leyndum.  

 

#13 Úrlausn ágreiningsmála, lög og lögsaga 

 

#13.1. Sé þjónustu ábótavant, eða ef viðskiptavinur vill koma á framfæri ábendingu eða kvörtun er unnt að hafa samband við Arctic Track í tölvupósti á netfangið at@at.is eða í síma 421-2222. Arctic Track leitast við að leysa úr öllum málum eins hratt og kostur er 

 

#13.2. Um skilmála þessa gilda íslensk lög. Rísi ágreiningur milli viðskiptavinar og Arctic Track vegna túlkun þeirra, sem ekki er unnt að leysa með farsælum hætti milli aðila, skal reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.  

 

#14 Skilmálabreytingar 

 

#14.1. Arctic Track áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum og/eða innihaldi þjónustu einhliða með að lágmarki þriggja mánaða fyrirvara, nema annað sé tilgreint í sértækum skilmálum fyrir viðkomandi þjónustu(r) eða í lögum eða stjórnvaldsreglum. Breytingar eru tilkynntar viðskiptavini eftir atvikum með skilaboðum á reikningi og/eða almennri tilkynningu á vefsíðu Arctic Track, www.at.is. Arctic Track áskilur sér einnig rétt til þess að tilkynna viðskiptavini um breytingar á skilmálum með tölvupósti á skráð netfang viðskiptavinar.  

 

#15 Annað 

 

#15.1. Ef misræmi er milli skilmála þessara, áskriftarsamnings eða sértækra samninga milli viðskiptavinar og Arctic Track, þá gildir áskriftarsamningur eða hinir sértæku samningar framar skilmálum þessum.  

 

#15.2. Arctic Track áskilur sér rétt til að hætta að bjóða einstaka þjónustur hvenær sem er án sérstakra skýringa. Komi til þess verður viðskiptavinum tilkynnt um það með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara.  

 

#15.3. Skilmálar þessir gilda frá og með 1. nóvember 2023 og þar til nýir taka gildi. Nýjasta útgáfa skilmála þessara er ávallt aðgengileg á vefsíðu Arctic Trackwww.at.is/almennirskilmalar.