Ísetning rafgeymarita – Leiðbeiningar
Hér eftir eru leiðbeiningar varðandi ísetningu rafgeymarita frá Arctic Track á 12V rafgeyma.
Ef eitthvað er óljóst er hægt að hafa samband í síma 421 2222 eða á at@at.is
Mikilvæg atriði, tól og tæki
Hvað þarf að hafa við höndina til að tryggja farsæla ísetningu?
- Réttur og merktur ökuriti frá Arctic Track
- Skiptilykill eða fastlyklasett
- Klippur
- Rafmagnsströpp
- Fituhreinsir (t.d. bremsuhreinsir)
- Límmiðar í glugga frá Arctic Track
- Hrein tuska
Gangið úr skugga um að:
- Slökkt sé á bifreiðinni
- Bifreiðin sé innandyra eða í skjóli frá ofankomu
- Rafgeymir sem tengja á ökuritann við sé 12V
Undirbúningur
Staðsetjið rafgeymi bifreiðar og hreinsið vel öll óhreinindi þar sem áætlað er að líma ökuritann.
Ökuritinn tengdur
Staðsetjið + og – póla rafgeymisins. Rauði vírinn úr ökuritanum tengist á plúsinn og svarti fer á mínusinn.
Losið um rærnar á pólum rafgeymisins, tengið ökuritann og herðið þéttingsfast svo ekki sé hætta á að tengingarnar losni.
Ökuritanum komið fyrir
Fjarlægið filmu af lími undir ökuritanum. Staðsetjið þannig að ökuritinn liggi flatur og vírarnir vísi fram.
Hagræðið vírunum úr ökuritanum þannig að þau geti ekki skemmst og notið dragbönd til þess að tryggja þau.
Límmiði settur í hliðarrúðu
Nauðsynlegt er að merkja bifreiðina þannig að ekki fari á milli mála að staðsetningabúnaður sé í henni.
Góður staður fyrir merkingu er í bílrúðu bílstjóramegin. Hreinsið rúðuna þar sem límmiðinn á að fara og límið hann að innanverðu.